Brjóstahaldari á meðal sönnunargagna

Fjórum bengalköttum var rænt úr skemmu í Nátthaga í Ölfusi einhverntíman á milli kl. 14 og 19 í gær. Þjófurinn skildi eftir sig brjóstahaldara og hlébarðabuxur á vettvangi.

Ólafur Sturla Njálsson, garðyrkjubóndi og kattaræktandi, birti tilkynningu á Facebooksíðu sinni í morgun þar sem hann tilkynnti um þetta og bað netverja um að aðstoða sig við að upplýsa þjófnaðinn.

Ólafur uppgötvaði seint í gærkvöldi að kettirnir væru horfnir en læst hurð hafði verið brotin upp og köttunum stolið ásamt tveimur búrum.

„Viðkomandi tók þarna tvö ræktunarfressin mín og tvær geldar læður,“ segir Ólafur sem grunar að þarna hafi léttvaxinn kvenmaður verið á ferðinni.

„Í snjónum voru spor eftir eina skógerð, flatur botn ca. stærð 38-39. Viðkomandi festi bíl sinn í snjónum á bílastæðinu en kunni greinilega til verka, setti dökkbláan brjóstahaldara í stærð 34D undir annað dekkið og þunnar, gráar buxur í stærðinni small með hlébarðamunstri undir hitt dekkið til að ná gripi.“

Ólafur segir að viðkomandi hafi vitað hvert hafi átt að sækja kettina á loftinu í skemmunni og rámar í að hafa séð þessar buxur á einhverri konunni sem hefur komið til hans að skoða.

„Það er ekki auðvelt að halda fressin í sama rými en annað fressið er mjög styggt og á eftir að verða mikið mál fyrir viðkomandi að halda dýrin án þess að eftir sé tekið af nágrönnum,“ bætir Ólafur við.

Þeir sem telja sig hafa upplýsingar um mannaferðir við Nátthaga í gær, eða annað sem leitt gæti til þess að málið upplýsist, eru beðnir um að hafa samband við lögregluna á Suðurlandi í síma 444-2000.

Fyrri greinOpið hús í FSu
Næsta greinViðar skrifaði undir þriggja ára samning