Breytingar framundan á húsnæði Kjarnans

Festi, móðurfélag Krónunnar og fleiri verslunarfyrirtækja hefur eignast stærstan hluta Kjarnans, við Austurveg 1-3 á Selfossi, sem hýsir Krónuna, Apótekarann og fleira.

Til stendur að ráðast í gagngerar breytingar á húsinu, bæði á kjallara og verslunarhlutanum. Að sögn Þórarins Ólafssonar, framkvæmdastjóra fasteignasviðs Festi, er ætlunin að þróa og breyta eigninni í þeim tilgangi að þar verði á ný miðstöð verslunar á Selfossi. Verið er að leggja lokahönd á hönnun hússins og þegar er búið að leigja út áður óleigð verslunarrými.

Þórarinn segir í bígerð að stækka bílakjallara með fjölgun bílastæða og lýsa upp, og ráðgert sé að koma fyrir rúllustiga úr bílakjallara til að einfalda aðgengi að verslunarhlutanum.

„Það verður stór breyting á aðstöðu viðskiptavina,“ segir hann, en nánast allur kjallarinn verður tekinn undir bílastæði. Að öðru leyti er ekki enn ljóst hvenær ráðist verður í umræddar framkvæmdir að sögn Þórarins.

Eftir að hönnun lýkur þarf að afla samþykkis byggingaryfirvalda fyrir breytingum á fasteigninni. Gangi það vel gæti framkvæmdum verið að ljúka með vorinu.

Fyrri greinStórt tap í Stykkishólmi
Næsta greinSundlaugin lokuð vegna lítils þrýstings