Breytingar á samdægursmóttöku á HSU

Sívaxandi þjónusta á bráðamóttöku hefur dregið úr mögulegu vinnuframlagi lækna við hefðbundna heilsugæslu á Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi.

Þrátt fyrir að stöður heilsugæslulækna á Selfossi hafi verið fullmannaðar þá hefur verið skortur á tímum hjá heilsugæslulæknum og almennt talsverð bið eftir hefðbundnum tímum.

Ein afleiðing þessa er aukin aðsókn á læknavaktina sem verið hefur starfrækt síðdegis, utan dagvinnutíma. Aðsóknin á þá móttöku hefur á köflum verið það mikil að hún hefur haft áhrif á bolmagn bráðamóttöku til að sinna hlutverki sínu.

Til að reyna að bæta þjónustuna hefur verið ákveðið að breyta fyrirkomulagi þessarar samdægursmóttöku og tóku breytingarnar gildi þann 20. júní sl. Þetta felur m.a. í sér að stór hluti hennar færist yfir á dagvinnutíma á virkum dögum og á dagvinnutíma verður einnig sérstök aðskilin skyndimóttaka fyrir börn auk hraðmóttöku fyrir fullorðna. Sömuleiðis verður í boði aðskilin skyndimóttaka fyrir börn um helgar.

Önnur breyting er að nú verður tekið upp tímabókunarfyrirkomulag sem ætti að leiða til þess að skjólstæðingar þurfi að eyða mun styttri tíma á biðstofu en ella. Hægt verður að hringja samdægurs til að fá tíma og mæta svo rétt fyrir þann tíma þannig að biðin á biðstofu ætti í flestum tilfellum ekki að vera lengri en 10-15 mínútur fyrir hvern og einn.

Vinna er sömuleiðis í gangi við aðrar aðgerðir til að bæta aðgengi að hefðbundnum tímum á heilsugæslunni á Selfossi. Líklegt er að þær aðgerðir fari að bera ávöxt með haustinu.

Þetta kemur fram á heimasíðu HSU, þar sem fræðast má frekar um nýja fyrirkomulagið.