Breytingar á búvörulögum vegna eldgossins

Gera á breytingar á búvörulögum til að bregðast við því ástandi sem skapast hefur á Suðurlandi vegna eldgossins í Eyjafjallajökli.

Á vef Bændablaðsins kemur fram að samkvæmt frumvarpi um breytingarnar verður fallið frá framleiðslutengingu beingreiðslna, bæði hjá kúabændum og sauðfjárbændum, ef þeir ákveða að bregða búi eða að draga verulega úr sinni framleiðslu af völdum gossins.

Sömuleiðis verður sett inn ákvæði um að flytji bændur bústofn tímabundið af jörðum sínum á aðrar jarðir geti þeir engu að síður lagt inn afurðir í sínu nafni og haldið beingreiðslum. Bæði ákvæðin eru tímabundin, tengd hamförum af völdum gossins í Eyjafjallajökli.

Samkvæmt frumvarpinu er stefnt að því að ákvæðin gildi til ársins 2012. Þá er stefnt að því að afnema hámarksupphæð sem ríkissjóður hefur heimild til að veita til Bjargráðasjóðs samkvæmt fjárlögum. Sú upphæð er 80 milljónir í dag en verður afnumin og ákvörðuð á fjárlögum hverju sinni. Ekki er um bráðabirgðaákvæði að ræða í tilfelli breytinga á Bjargráðasjóði.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd afgreiddi frumvarpið á fundi sínum í hádeginu í dag og að sögn Atla Gíslasonar formanns nefndarinnar er stefnt að því að mæla fyrir því á föstudaginn kemur. Atli segir varðandi breytingarnar á Bjargráðasjóði að talið sé að þær áttatíu milljónir sem ríkissjóður getur samkvæmt fjárlögum lagt til sjóðsin dugi ekki til. „Sjóðurinn hefur fram að þessu að mestu verið í einstökum málum, en tjón af völdum þessa goss er svo útbreitt að þetta hámark á bara ekki við.“

Atli segir að frumvarpið hafi verið flutt að frumkvæði nefndarinnar. „Ég vil helst sjá málið klárað í næstu viku, jafnvel á föstudaginn ef tekst að dreifa því í þinginu á morgun. Það verður lagt kapp á að það fari ekki einu sinni inn í nefnd á milli umræða. Það var full samtaða um málið í nefndinni og það ég hef heyrt er einnig full samstaða um það milli allra flokka á þinginu. Menn fagna þessu bara, hvar í flokki sem þeir standa enda um þannig mál að ræða.“

Fyrri greinSex sunnlendingar á NM í körfu
Næsta greinSelfoss – Fylkir 1-3