Breytingar á Austurvegi eiga að auka umferðaröryggi

Ný ásýnd Austurvegarins, horft að ráðhúsi Árborgar. Mynd/Landhönnun slf.

Umhverfisnefnd Árborgar hefur samþykkt tillögu Vegagerðarinnar um nýja útfærslu umferðareyjunnar á miðjum Austurvegi á Selfossi, frá Tryggvatorgi að Sigtúni.

Breytingarnar eru gerðar til þess að auka umferðaröryggi við götuna en mikill umferðarþungi er á þessu svæði og á að setja upp girðingu í miðeyjuna til að beina gangandi fólki að gangbrautinni og þannig tryggja öryggi þess.

Núverandi trjágróður verður fjarlægður og sett verða ný tré í staðinn. Þá verða settir blómakassar á girðinguna með svipuðum hætti og er við Tryggvatorg í dag.

Í umferðaröryggisrýni sem unnin var kemur fram að núverandi gróður skerði sjónlínu ökumanna og stafar því hætta af því gagnvart annarri umferð og gangandi vegfarendum.

Ný ásýnd Austurvegarins er hönnuð af Vegagerðinni, sem sér um framkvæmdir á eyjunni og uppsetningu grindverks en sveitarfélagið sér um að fjarlægja gróður og uppsetningu nýrra trjáa og blómakerja.

Stefnt er að því að hefja framkvæmdir við verkið sem fyrst og að því verði lokið í maí eða júní.

Mynd/Landhönnun slf.
Fyrri greinEf árangur á að nást þá getur enginn skorast undan
Næsta greinKótilettu karlakvöld í Tryggvaskála