Brennuvargur náðist á eftirlitsmyndavél

Mynd úr safni. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Brennuvargur sem talinn er ganga laus á Selfossi sást í eftirlitsmyndavél við Vallaskóla aðfaranótt 20. nóvember síðastliðins.

Það kvöld var kveikt í ruslagámi við Vefjuna við Tryggvagötu og skömmu síðar í ruslagám við Vallaskóla.

Á eftirlitsmyndavélum sést aðili í blárri úlpu, svartri hettupeysu, dökkum buxum og dökkum skóm með hvítri rönd koma eftir Bankavegi kl. 2:33, inn á Sólvelli, staldra stutta stund við við innganginn að íþróttahúsinu en halda síðan að gámnum sem staðsettur er milli íþróttahússins og sparkvallarins og bera eld að innihaldi gámsins. Viðkomandi hleypur síðan af vettvangi austur Sólvelli.

Lögreglan mun byrja á að kynna öllum lögreglumönnum myndbandið en ef viðkomandi þekkist ekki af þeim má reikna með að myndir verði birtar í fjölmiðlum í því skyni að upplýsa um hann er.

Eins og sunnlenska.is hefur greint frá hefur slökkviliðið fengið nokkur útköll af svipuðum toga á Selfossi síðustu vikur. Mesta tjónið varð þegar ruslageymsla við Tryggvagötu 36 brann í lok október.

Lögreglan á Suðurlandi óskar eftir því að þeir sem kunna að hafa upplýsingar um málið komi þeim til lögreglu enda er ljóst að hætta af íkveikjum sem þessum er veruleg þó einhver kunni að telja saklaust að kveikja í ruslagámi.
Fyrri greinÁtján teknir fyrir hraðakstur í hálkunni
Næsta grein56 í einangrun á Suðurlandi