Brenndist alvarlega í sumarbústað

Karlmaður brenndist alvarlega á efri hluta líkama síns þegar sjóðandi vatn helltist yfir hann í sumarbústað í Grímsnesi aðfaranótt sunnudags.

Maðurinn var í bústaðnum ásamt fleira fólki og ætlaði að leggjast í setlaug sem var á sólpalli við húsið. Ekki var nægjanlega heitt vatn í setlauginni og var þá brugðið á það ráð að hita vatn í fimm lítra potti á eldavél.

Búið var að fara með nokkra potta í setlaugina þegar maðurinn rann í hálku með pottinn í höndunum og fékk sjóðandi vatnið yfir sig.

Sjúkraflutningamenn voru kallaðir á staðinn og fluttu þeir manninn á slysadeild Landspítala í Fossvogi þar sem hann var lagður inn á gjörgæsludeild. Maðurinn hlaut 2. stigs brunasár en er með meðvitund og ástand hans metið stöðugt.

Fyrri greinFjóla kvaddi Ísland með stæl
Næsta greinÖlvunarakstur endaði í skafli