Brenna meðan beðið er

"Við bíðum þess að fá niðurstöður úr mælingum," segir Eygló Kristjánsdóttir, sveitarstjóri í Skaftárhreppi.

Umhverfisstofnun hefur óskað eftir umsögn sveitarfélagsins um tillögur stofnunarinnar vegna endurskoðunar á meðferð og brennslu á sorpi í sorpbrennslustöðinni á Kirkjubæjarklaustri.

Eygló segir að von sé á niðurstöðum mælinga á díoxíni í nágrenni stöðvarinnar fljótlega. Á meðan verði óbreytt ástand og sorpið verði áfram brennt í sorpbrennslustöðinni. Ekki sé ástæða til að grípa til aðgerða að sinni.

“Við höfum sett saman vinnuhóp sem á að fara yfir hvernig brugðist verður við ef við þurfum að loka stöðinni,” segir hún. “Við teljum hins vegar að úrvinnsla sorps hér sé með ágætum.”

Um 90% af öllu sem til fellur í sveitarfélaginu er brennt í stöðinni eftir flokkun en aðeins um 10% fer til urðunar.