Breikkun Suðurlandsvegar seinkar

Kærunefnd útboðsmála hefur fellt úr gildi ákvörðun Vegagerðarinnar um að semja við Vélaleigu AÞ ehf. um breikkun Suðurlandsvegar frá Litlu kaffistofunni að Lögbergsbrekku.

Háfell ehf., sem átti þriðja lægsta tilboðið, kærði ákvörðun Vegagerðarinnar til kærunefndarinnar.

Úrskurðurinn veldur því að seinkun verður á framkvæmdinni. Kærunefndin komst einnig að þeirri niðurstöðu að tilboð Háfells ehf. hafi ekki heldur verið gilt. Því getur Vegagerðin ekki heldur samið við Háfell ehf. um breikkun vegarins að svo stöddu.

„Ljóst er að því mun enn tefjast að framkvæmdir við þessa tvöföldun hefjist en það er álit úrskurðarnefndarinnar að tilboð Háfells hafi heldur ekki verið gilt og að verktakinn hafi ekki sýnt fram á raunhæfa möguleika á að verða fyrir valinu í útboði,“ segir á vef Vegagerðarinnar.