Braut bílrúður með golfkylfu

Um klukkan 3:50 aðfarnótt sunnudags sást til ungs manns brjóta afturrúðu í bifreið sem stóð á Heiðarvegi á Selfossi.

Maðurinn var í ljósum bol og notaði golfkylfu til að brjóta bílrúðuna. Þrátt fyrir leit fannst maðurinn ekki.

Sömu nótt var afturrúða brotin í bifreið sem stóð skammt frá hinni. Mjög líklega hefur sami einstaklingur verið að verki. Þriðja bifreiðin varð fyrir skemmdum af sama toga en hún stóð við Álftarima þessa sömu nótt.

Í dagbók Selfosslögreglunnar kemur einnig fram að aðfaranótt sunnudags hafi tvær stórar rúður verið brotnar í leikskólanum Hulduheimum við Erlurima á Selfossi.

Hver sá sem veitt getur upplýsingar um þessi mál er beðinn að hafa samband í síma 480 1010.