Braust inn í Rauða með hamri

Aðfaranótt miðvikudags í síðustu viku var brotist inn í veitingahúsið Rauða húsið á Eyrarbakka. Í eftirlitsmyndavél sást til manns brjóta rúðu með hamri, fara inn í húsið og hafa á brott fimm áfengisflöskur.

Maðurinn var í dökkri hettupeysu eða -úlpu með hvítu merki á hægri öxl. Þá var hann í inniskóm með hvítu bandi.

Sömu nótt voru tvær rúður brotnar í félagsheimilinu Stað á Eyrarbakka. Hugsanlega hefur rúðubrjóturinn ætlað inn í húsið en rimlar sem voru fyrir glugganum að innanverðu komu í veg fyrir frekari tilraun til að komast inn í húsið. Ekki er útilokað að sami einstaklingur hafi verið þarna að verki og braust inn í Rauða húsið.

Þá var tilkynnt var um innbrot í hús að Hafnarskeiði 19 í Þorlákshöfn síðastliðinn miðvikudag. Eldhúsgluggi var spenntur upp og þar farið inn. Hurðum að fjórum herbergjum sparkað upp og úr einu herberginu var stolið Dell fartölvu. Ekki liggur fyrir hvort öðru hafi verið stolið.

Lögregla biður alla þá sem veitt geta upplýsingar um þessi þrjú mál að hafa samband í síma 480 1010.

Fyrri greinHótaði fólki með skærum í ölæði
Næsta greinTónahátíð framundan í Flóahreppi