Brauðtertu- og ostakökukeppni Konungskaffis og Kaffi Krúsar

Það er fátt betra en góð brauðterta. Ljósmynd/emeliagustavs

Sunnudaginn 26. maí fer fram brauðtertu- og ostakökukeppni á vegum Kaffi Krúsar og Konungskaffis á Selfossi.

„Við höfum nokkrum sinnum verið með osta- og skyrkökukeppni á Kaffi Krús sem hefur verið mjög skemmtilegt. Okkur langaði að endurtaka leikinn og gera keppnina fjölbreyttari og veglegri með því að láta Kaffi krús og Konungskaffi halda keppnina saman og bæta við brauðtertum. Svo er búið að taka þá ákvörðun að þessi keppni verður árleg,“ segir Tómas Þóroddsson, hjá Kaffi Krús, í samtali við sunnlenska.is.

Tómas hvetur alla til að taka þátt taka þátt, unga sem aldna. „Það er gaman að segja frá því að það hafa alltaf verið áhugamenn sem hafa unnið keppnina. Endilega hvetjið þá sem þið vitið að hafa leyndan hæfileika til að taka þátt.“

Áhugafólk um brauðtertur má alls ekki láta þessa keppni fram hjá sér fara. Ljósmynd/emeliagustavs

„Þetta eru tvær keppnir, ein keppni fyrir skyr- og ostakökur og önnur fyrir brauðtertur. Skráning fer fram á kaffikrus@kaffikrus.is fyrir 24. maí. Það má taka þátt í báðum keppnum eða senda inn fleiri en eina köku eða tertu. Kökurnar verða svo til sýnis fyrir utan Konungskaffi í miðbæ Selfoss á sunnudaginn, á milli klukkan 12:00 og 14:00,“ segir Silja Hrund Einarsdóttir hjá Konungskaffi.

Aðspurð hvort útlitið eða bragðið skipti meira máli segir Silja að bragðið vegi þyngra. „En eins og við vitum þá skiptir útlitið einnig miklu máli.“

Allir sem taka þátt fá gjafabréf frá Kaffi Krús og Konungskaffi að verðmæti 20.000 kr. Veitt eru verðlaun fyrir 1. sætið í báðum keppnum en einnig eru veitt verðlaun fyrir frumlegheit og björtustu vonina.

„Við höfum í gegnum tíðina haft sigurkökuna í sölu í einhverja mánuði og það er aldrei að vita nema við gerum það ef samningar nást við vinningshafana,“ segir Tómas.

Í dómnefnd eru Erla Hlynsdóttir hjá Brauðtertufélag Erlu og Erlu, Fjóla Kristinsdóttir bæjarstjóri Árborgar, Silja Hrund Einarsdóttir hjá Konungskaffi,
Torfi Ragnar Sigurðsson sælkeri og Ísak Eldjárn Tómasson hjá Kaffi Krús.

Góð kaka gerir góðan dag enn betri. Ljósmynd/Aðsend
Fyrri greinMari Järsk og Guðni forseti mæta í Mýrdalshlaupið
Næsta greinBrynja ráðin yfirlæknir á bráðamóttökunni