Bragi gefur kost á sér áfram

Bragi Bjarnason var gestur Guðmundar Karls í Lifandi spjalli á Risinu síðastliðið fimmtudagskvöld. Ljósmynd/Davíð Lúther

Bragi Bjarnason, odddviti D-listans og bæjarstjóri Árborgar, hyggst gefa kost á sér til þess að leiða lista Sjálfstæðisflokksins í Árborg sem bæjarstjóraefni í sveitarstjórnarkosningunum næsta vor.

Þetta kom fram í Lifandi spjalli Braga og Guðmundar Karls Sigurdórssonar, ritstjóra sunnlenska.is á Risinu í miðbæ Selfoss síðastliðið fimmtudagskvöld.

Bragi sagði að það væri í höndum fulltrúaráðs Sjálfstæðisflokksins í Árborg að ákveða hvort um uppstillingu eða prófkjör yrði að ræða en Sjálfstæðisflokkurinn stæði alla jafna fyrir því að viðhafa prófkjör.

„Það hefur verið heiður að leiða lista Sjálfstæðisflokksins og bæjarstjórn Árborgar undanfarin þrjú ár. Sveitarfélagið hefur farið í gegnum erfiða tíma en í sameiningu höfum við komist áfram. Það eru spennandi verkefni framundan í Árborg á næstu árum sem ég hefði hug á að fylgja eftir. Ég brenn fyrir samfélagið okkar og mun því óska eftir að leiða lista Sjálfstæðisflokksins í komandi sveitarstjórnarkosningum næsta vor,“ sagði Bragi.

Bragi sigraði í prófkjöri D-listans vorið 2022. Hann var formaður bæjarráðs frá 2022 þar til hann tók við starfi bæjarstjóra þann 1. júní 2024.

Fyrri grein„Húsið er að gráta…“
Næsta greinÞáttaskil í starfsemi First Water