Bráðaviðbragð skipulagt í Öræfum til framtíðar

Þjóðvegur 1 á Breiðamerkursandi. Öræfajökull í baksýn. Ljósmynd © Mats Wibe Lund

Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að styrkja heilbrigðisþjónustu og bráðaviðbragð í Öræfum árið um kring. Starfshópur verður skipaður um verkefnið til að móta fyrirkomulag þess og á hann að skila tillögum til ráðherra í lok október.

Sömuleiðis hefur ráðherra ákveðið að framlengja núverandi fyrirkomulag bráðaviðbragðs í Öræfum til loka þessa árs. Sú ákvörðun er meðal annars byggð á sameiginlegu mati forstjóra Heilbrigðisstofnunar Suðurlands (HSU) og sveitarstjórnar Hornafjarðar um nauðsyn þess. Þótt fjöldi ferðamanna sé mestur yfir sumarmánuðina reynist mesta álagið vegna alvarlegra útkalla á svæðinu vera á tímabilinu desember til mars.

„Ég tel einboðið að ráðast í þetta verkefni til að auka öryggi íbúa og þeirra sem leið eiga um þetta strjálbýla en fjölfarna svæði. Ég mun einnig ræða við innviðaráðuneytið um hvernig auka megi umferðaröryggi á svæðinu og að skoðaðir verði möguleikar þess að byggja upp viðurkenndan sjúkraflugvöll á svæðinu,“ segir Alma D. Möller, heilbrigðisráðherra.

Síðastliðin tvö sumur hefur verið haldið úti bráðaviðbragði í Öræfasveit sem felst í stöðugri viðveru sjúkrabíls og reynds sjúkraflutningamanns sem sinnir bráðaþjónustu í samstarfi við björgunarsveitina Kára. Markmiðið er að tryggja skjót viðbrögð, s.s. ef meta þarf áverka eftir slys, bregðast við bráðaveikindum, veita fyrstu hjálp og undirbúa flutning á sjúkrastofnun ef þarf.

Verkefni starfshóps sem heilbrigðisráðherra mun skipa með aðkomu þjónustuveitenda og helstu hagaðila verður að gera tillögur til ráðherra um fyrirkomulag þjónustunnar.

Fyrri grein„Þetta var einfalt fyrir mér“
Næsta greinSigrún ráðin skólastjóri Kerhólsskóla