Bræður tilnefndir sem „Hetja ársins“

DV stendur nú fyrir kosningu á Hetju ársins 2011. Þrír Sunnlendingar eru tilnefndir, m.a. bræðurnir Grímur og Þórir Hergeirssynir.

Grímur, sem er lögmaður og fyrrverandi lögreglumaður á Selfossi, var að keyra upp Kambana í byrjun desember og kom að manni sem lá hreyfingarlaus við bíl sinn á veginum. Sá var flutningabílstjóri sem hneig niður þegar hann var að keðja bílinn. Grímur fann ekki púls á manninum og hringir þá í Neyðarlínuna og hefur endurlífgun. Þar koma þá að hjón sem eru bæði sjúkraflutningamenn og í sameiningu koma þau honum til lífs. Maðurinn var svo fluttur í bæinn með sjúkrabíl.

Þórir er þjálfari norska kvennalandsliðsins í handbolta. Um helgina varð hann fyrsti Íslendingurinn til þess að verða heimsmeistari í handknattleik þegar hann stýrði norska kvennalandsliðinu til sigurs á HM í Brasilíu. Norska kvennalandsliðið varð einnig Evrópumeistari undir stjórn Þóris en hann var aðstoðarþjálfari þegar norsku stelpurnar urðu Ólympíumeistarar í handbolta.

Auk þeirra bræðra er Pétur Kristján Guðmundsson, kvikmyndagerðarmaður frá Flúðum í Hrunamannahreppi, tilnefndur. Pétur Kristján lenti í alvarlegu slysi í Austurríki um síðustu áramót og lamaðist. Í júlí var rætt við Pétur sem var þá farinn að ganga við spelkur. „Ætli það sé ekki svona einn og hálfur mánuður síðan ég byrjaði að ganga, það var svolítið erfitt í byrjun og þá var ég bara í svona göngubrú, það er að segja með handrið báðum megin við mig. Ég byrjaði þar. Svo byrjaði ég að labba með göngugrind en fyrir svona tveimur eða þremur vikum byrjaði ég að ganga með hækjur,“ sagði Pétur.

Einnig eru brúarsmiðir Vegagerðarinnar tilnefndir en í byrjun júlí varð mikið hlaup í Múlakvísl og fljótlega fór brúin og þar með hringvegurinn. Búist var við að smíði nýrrar brúar mundi taka tvær til þrjár vikur en brúarsmiðir Vegagerðarinnar brugðust hratt við og var bráðabirgðabrúin opnuð rúmri viku síðar. Þótti frammistaða Vegagerðarinnar í smíði brúarinnar vera einstök og með smíði brúarinnar tókst að varna því að ferðaþjónusta á svæðinu yrði fyrir stórtjóni.

DV óskaði eftir tilnefningum lesenda um hetju ársins 2011 og bárust rúmlega 200 ábendingar. Tekið var mið af þeim ábendingum en þar að auki komu tilnefningar frá dómnefnd DV. Hana skipuðu Hallgrímur Helgason rithöfundur, Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir, blaðamaður DV auk Jóns Gnarr borgarstjóra.

Hér er hægt að kjósa um hetju ársins 2011. Kosningu lýkur á miðnætti þann 26. desember nk. Kosið er með „Like“ eða „Líkar“ takkanum.

Niðurstaða kosningarinnar verður kunngjörð í kringum áramótin. Hetjan fær að gjöf Samsung Galaxy 10.1 frá Samsung­setrinu að verðmæti 109.900 krónur.