Botnlaus gjá undir Víðivöllum

Við uppgröft á jarðsigi á Víðivöllum á Selfossi hefur komið í ljós botnlaus gjá á milli tveggja klappa undir götunni.

Gat kom á malbikið á Víðivöllunum á laugardag og þar undir var tveggja rúmmetra holrúm. Mokað var uppúr holunni í gær og komu þá í ljós tvær klappir á tveggja metra dýpi en á milli þeirra er gjá þar sem gröfumaður Ræktunarsambandsins náði ekki til botns.

“Þegar við opnuðum þetta þá kom í ljós að bæði vatns- og fráveitulögn var mjög sigin og við þurfum að endurnýja fráveituna á þessum kafla. Skólplögnin var hrunin og vatnslögnin hafði sigið um einhverja 60 sm. Það eru hins vegar engin jarðefni inni í lögnunum,” sagði Jón Tryggvi Guðmundsson, deildarstjóri veitusviðs hjá Árborg.

Jón segir að menn séu ekki á einu máli um hvort um jarðskjálftasprungu sé að ræða en bæði jarðfræðingar og verkfræðingar hafa skoðað aðstæður á Víðivöllunum.

Fráveitulögnin var mynduð árið 2009, í kjölfar Suðurlandsskjálftans 2008, og segir Jón að hún hafi ekki litið vel út þá. “Það má segja að ástandið sé þannig heilt yfir í eldri bæjarhlutum Selfoss. Við mynduðum þetta aftur í gær og þá festist tækjabúnaðurinn í lögninni þannig að við þurftum að grafa niður á hana nokkru vestar en jarðsigið var. Samtals þurfum við að endurnýja 60 metra af lögnum í götunni.”

Jón segir að vinna við verkið muni standa í einhverja daga en vonandi verði hægt að aka um götuna í lok næstu viku, þó að ekki verði búið að malbika. “Þetta er seinleg vinna þar sem það þarf að gæta þess að skemma ekki aðrar lagnir.”