Börnin vöknuðu við reykinn

Sex manns náðu að bjarga sér af sjálfsdáðum út úr orlofshúsi í Ölfusborgum um klukkan átta í morgun eftir að eldur kviknaði í rúmdýnu og húsið fylltist af reyk.

Tvö börn sem sváfu í neðri koju í svefnherbergi vöknuðu við reyk í herberginu en þá hafði kviknað í dýnunni í efri kojunni, sem var mannlaus. Halogenlampa, sem var í neðri kojunni, hafði verið snúið upp, þannig að hann hitaði rúmbotninn á efri kojunni. Hitinn var á endanum orðinn það mikill að gat kom á rúmbotn efri kojunnar og rjúka tók úr dýnunni.

Börnin vöktu aðra í húsinu, þrjá fullorðna og eitt barn til viðbótar og fólkið forðaði sér út.

Slökkvilið Brunavarna Árnessýslu í Hveragerði var kallað út, ásamt lögreglu og sjúkraliði. Húsið var reykræst en talsverður reykur var í húsinu.

Fyrri greinEin elsta sundlaug landsins opnuð í Hvammi
Næsta greinLeitinni ekki hætt