Börn og kindur í umferðinni

Lögreglan á Hvolsvelli brýnir fyrir ökumönnum að halda athyglinni við aksturinn þar sem nú er sá tími sem sauðfé færir sig niður í byggð og unga fólkið fer út í umferðina í skólabyrjun.

Lögreglan fékk fjölda tilkynninga um sauðfé við vegi í liðinni viku og vill í ljósi þess minna ökumenn á að reikna með búfé við vegi í umdæminu.

Þá eru skólarnir að hefjast í þessari viku og fullt af ungu fólki sem komið er í umferðina sem hefur ekki alltaf athyglina í lagi. Því er brýnt að þeir sem eldri eru haldi athyglinni við aksturinn og fylgist vel með í kringum sig, sérstaklega þegar ekið er í kringum skólasvæði.