Börn frá 12 mánaða aldri á nýjum leikskóla

Börnum frá 12 mánaða aldri verður boðin vistun á nýjum sex deilda leikskóla að Þelamörk 62 í Hveragerði sem framkvæmdir munu hefjast við næsta sumar. Bæjarstjórn Hveragerðis samþykkti þetta á fundi sínum í febrúar.

Við hönnun hússins verður gert ráð fyrir þörfum yngstu barna og því er mögulegt að börn komist jafnvel inn aðeins fyrr ef brýna nauðsyn ber til.

Samkvæmt tillögu starfshóps um byggingu nýs leikskóla í Hveragerði er gert ráð fyrir að leikskólinn verði fullkláraður að utan ásamt lóð en til að byrja með verði innréttaðar fjórar deildir og tvær bíði innréttinga þar til þörf skapast fyrir fleiri leikskólapláss. Gert er ráð fyrir að nýr leikskóli taki til starfa á haustmánuðum 2017.

Samið verður um hönnun hússins við Pál Gunnlaugsson og Sigurlaugu Sigurjónsdóttur arkitekta hjá ASK arkitektum en þau hafa komið að hönnun fjölda leikskóla á undanförnum árum, þeirra á meðal er leikskólinn Hulduheimar á Selfossi og leikskólinn Óskaland í Hveragerði.

Með samþykkt bæjarstjórnar er gert ráð fyrir að Leikskólinn Undraland fái nýtt hlutverk og geti til dæmis í framtíðinni hýst frístundaskóla bæjarins. Lóð Undralands hentar sérlega vel fyrir eldri börn og húsið ætti einnig að vera hentugt fyrir þann mikla fjölda barna sem nú nýtir þjónustu frístundaskólans. Ennfremur gefur þessi breyting möguleika á aukinni notkun grunnskólans á húsnæði Undralands enda húsnæðið staðsett í göngufæri við grunnskólann.

Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri, segir að gera megi ráð fyrir að byggingarkostnaður nýs leikskóla nemi ekki undir 400 milljónum króna og er bygging leikskólans því stærsta einstaka fjárfesting Hveragerðisbæjar á núverandi kjörtímabili.

Fyrri greinÁkvörðunin bæði fáránleg og fyrirséð
Næsta greinNýskipað ungmennaráð á fyrsta fundi