Borgarvirki og GT verktakar buðu lægst í Reykjaveg

Vegagerð. Mynd úr safni. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Borgarvirki ehf. og GT verktakar ehf. í Hafnarfirði buðu lægst í breikkun og endurgerð Reykjavegar í Biskupstungum. Tilboð í verkið voru opnuð í vikunni.

Um er að ræða breikkun og endurgerð á Reykjavegi ásamt byggingu nýrrar 20 m langrar eftirspenntrar brúar yfir Fullsæl. Lengd kaflans auk tengivega er 8 km.

Tilboð Borgarvirkis og GT verktaka hljóðaði upp á rúmar 535,4 milljónir króna og var 88,5% af áætluðum verktakakostnaði, 605 milljónum króna.

Tvö önnur tilboð voru undir kostnaðaráætlun, frá Þjótanda á Hellu rúmar 575,2 milljónir króna og frá Borgarverki tæpar 577,8 milljónir króna.

Önnur tilboð í verkið komu frá Suðurverki rúmar 623 milljónir króna, Mjölni á Selfossi rúmar 679,3 milljónir og frá Magnúsi Jónssyni rúmar 998,4 milljónir króna.

Fyrsti áfangi verksins er 3,5 km fullgerður vegur og á þeim kafla að vera lokið fyrir 1. september næstkomandi. Verkinu skal svo vera að fullu lokið 1. september 2020.

Fyrri greinRafmagnslaust á stórum hluta Suðurlands
Næsta greinTvær áhugaverðar rannsóknir á Suðurlandi fengu styrk