Borgarverk bauð lægst í veg og lagnir

Borgarverk ehf í Borgarnesi bauð lægst í gerð aðkomuvegar og lagna að fyrirhugaðri skólphreinsistöð við Geitanes á bökkum Ölfusár.

Tilboð Borgarverks hljóðaði upp á tæpar 18,8 milljónir króna og var aðeins rúm 57% af kostnaðaráætlun, sem var tæpar 32,8 milljónir króna.

Gröfutækni ehf á Flúðum bauð tæpa 21 milljón króna, Gröfuþjónusta Steins ehf á Selfossi tæpar 23 milljónir króna og Þjótandi ehf á Hellu tæpar 26 milljónir króna.

Verkið felur í sér framkvæmdir við vatnsveitu- og hitaveitulagnir, ídráttarrör fyrir ljósleiðara auk endurgerðar og uppbyggingu vistgötu sem mun þjóna sem aðkomuleið að fyrirhugaðri hreinsistöð við Geitanes. Lega lagnanna verður meðfram núverandi vegi sem liggur frá gatnamótum Hagalækjar og Móavegar að lóð væntanlegrar skolphreinsistöðvar.

Verkinu á að vera lokið þann 15. september næstkomandi.

Fyrri greinEkki hægt að slátra í verkfalli
Næsta greinKristín og Elfa ráðnar skólastjórar