Borga foreldrum fyrir að hafa börnin heima

Foreldrar í Rangárþingi ytra geta fengið 30 þúsund krónur á mánuði fyrir að vera heima með börnum sínum. Ástæðan er sú að enga dagvistun er að fá fyrir ákveðinn aldur barna í sveitarfélaginu.

„Þetta er nú bara rétt að fara af stað og engin reynsla komin enn á málið,“ segir Ágúst Sigurðsson, sveitarstjóri Rangárþings ytra en nýju heimgreiðslurnar tóku gildi um áramótin.

Greiðslurnar eru fyrir börn á aldrinum níu til átján mánaða sem eru ekki á leikskóla. Heimgreiðsla er bundin því að barn sé með lögheimili og aðsetur í Rangárþingi ytra.

„Svo eru sett skilyrði að foreldri hafi búið í sveitarfélaginu a.m.k. sex mánuði áður en greiðslur geta hafist,“ segir Ágúst.

„Þessi hugmynd kviknaði þegar við fórum að huga að daggæslumálum hér í Rangárþingi ytra. Hér hafa ekki verið starfandi dagforeldrar lengi þrátt fyrir að ákveðin þörf sé fyrir hendi og við vorum að velta fyrir okkur hvort við ættum að hvetja til slíkrar starfsemi með því að t.d. niðurgreiða daggæslu líkt og sum sveitarfélög gera,“ segir Ágúst.

Hann segist ekki gera sér grein fyrir hver kostnaður sveitarfélagsins af verkefninu verður á ári, reynslan verði að segja til um það, en hann segist þó halda að það gæti orðið á bilinu 3 til 4 milljónir króna.

Sjá nánar í Sunnlenska fréttablaðinu

Fyrri greinÓlafur og Gunnar Björn HSK meistarar
Næsta greinHerslumuninn vantaði hjá Þór