„Borg í sveit“ á laugardag

Laugardaginn 30. maí verður viðburðurinn „Borg í sveit – alvöru sveitadagur“ haldinn í fyrsta skipti í Grímsnes- og Grafningshreppi.

Þann dag munu fyrirtæki, bændur og einstaklingar í sveitarfélaginu taka höndum saman, hafa opið hjá sér og bjóða gesti og gangandi velkomna í heimsókn.

Fjöldi býla bjóða gesti velkomna að skoða dýrin í sveitinni í sínu náttúrulega umhverfi, hægt er að skoða handverk, fara á hundasýningu, kíkja í súpu og brauð, pönnukökur og kaffi og ná sér í heimabakað á kökubasar.

Hægt verður að skoða Kerið án endurgjalds þennan dag og það er frítt í sund á Borg auk þess sem fjölbreytt afþreying verður um alla sveit. Golf, litabolti, klifurturn, bogfimi, þrautabraut og ganga um Hengilsvæðið.

Hægt er fá matvöru beint frá bónda, úrval af sumarblómum og kryddplöntum og það verða tilboð á veitingum hjá verslunum og veitingastöðum í sveitinni.

Á og við Borg verða verktakar í sveitinni með kynningar og ráðgjöf, ýmis tæki og tól verða til sýnis fyrir utan félagsheimilið, í boði verður að fá ráðgjöf um garðyrkju, Hjálparsveitin Tintron verður með sýningu á staðnum og hægt verður að skoða leik- og grunnskólann.

Á laugardagskvöldið verða tónleikar í Félagsheimilinu Borg. Þar verða öll bestu lög Villa Vill flutt af Jóhanni Vilhjálms, Stefaníu Svavars og Óskari Péturs frá Álftagerði.

Fyrri greinDagbók lögreglu: Leigði ótryggðan bílaleigubíl
Næsta greinStrætóferðir falla niður komi til verkfalla