Borðaklipping og bjartur söngur við vígslu Stekkjaskóla

Fjóla og Hilmar klippa á borðann með aðstoð frá Svavari Orra og Elmu Eir. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Stekkjaskóli á Selfossi, nýjasti grunnskólinn í Sveitarfélaginu Árborg, var formlega vígður við glæsilega athöfn í morgun, þar sem boðið var upp á leiklist og tónlist og örstutt ræðuhöld.

Nemendur í 1. bekk sungu og fleiri nemendur léku einleik á hljóðfæri áður en 5. bekkur steig á stokk og flutti atriði úr Dýrunum í Hálsaskógi. Þá mættu fulltrúar foreldrafélagsins og færðu bókasafni skólans bóka- og spilagjöf.

Í máli Hilmars Björgvinssonar, skólastjóra, kom fram að þó að saga Stekkjaskóla væri stutt hefði hún verið viðburðarík, í gegnum flutninga og heimsfaraldur. Fyrsta skólasetning Stekkjaskóla var í ágúst 2021 og síðan hefur skólinn flutt sig tvisvar á milli húsa áður en nýtt og glæsilegt skólahúsnæði var tekið í notkun í mars síðastliðnum. Hilmar sagði hönnun skólans vera vel heppnaða og að húsið héldi vel utan um nemendur.

Um er að ræða fyrsta áfanga skólans, sem er um 4.000 fermetrar, en stefnt er að því að 2. áfangi verði tekinn í notkun í byrjun ágúst 2024 og strax í framhaldinu verði þriðji áfangi boðinn út. Fullbúin verður skólabyggingin um 11 þúsund fermetrar.

Fjóla St. Kristinsdóttir, bæjarstjóri, klippti á borða ásamt Hilmari til að vígja húsnæðið og nutu þau aðstoðar yngsta og elsta nemanda skólans, Elmu Eir Styrmisdóttur og Svavars Orra Arngrímssonar. Gríðarleg fagnaðarlæti brutust út að lokinni borðaklippingunni.

Í tilefni dagsins verður opið hús í skólanum milli kl. 14 og 16 í dag fyrir íbúa Árborgar og eru fjölskyldur tilvonandi 1. bekkinga boðnir sérstaklega velkomnir.

Atli Marel Vokes, sviðsstjóri mannvirkja- og umhverfissviðs Árborgar og Sigurður Ólafsson, deildarstjóri framkvæmda- og tæknideildar Árborgar, færðu Hilmari skófluna sem hann notaði við fyrstu skóflustungu skólans og verður hún hengd upp á vegg í skólanum. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Nemendur í 1. bekk sungu fyrir gesti. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Nemendur 5. bekkjar fluttu atriði úr Dýrunum í Hálsaskógi. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Nemendur Stekkjaskóla tóku virkan þátt í vígsluathöfninni og sátu stillt og prúð undir ræðuhöldunum. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Fyrri greinFjör í Flóa um helgina
Næsta greinFlügger flytur og stækkar