Bóndi kærður til lögreglu fyrir ofbeldi og hótanir

Höfuðstöðvar Matvælastofnunar á Selfossi. sunnlenska.is/Sigmundur

Mat­væla­stofn­un hef­ur kært bónda til lög­regl­unn­ar fyr­ir of­beldi og hót­an­ir í garð eft­ir­lits­manns henn­ar.

Í tilkynningu frá Matvælastofnun segir að starfsmenn hennar hafi nýlega farið í eftirlit á sauðfjárbú í suðausturumdæmi. Umdæmið nær frá Ölfusi austur á Djúpavog.

Bóndinn hleypti eftirlitsfólkinu inn í fjárhúsið en þegar dýraeftirlitsmaðurinn fór að setja út á velferð fjárins lagði hann hendur á viðkomandi starfsmann og lét ekki af því fyrr en eftirlitsdýralæknirinn hrópaði á hann að hætta. Ekki tókst því að ljúka eftirlitinu í það skiptið.

Tveimur vikum síðar var farið aftur í eftirlit á sama bæ og nú í lögreglufylgd og tókst þá að ljúka eftirlitinu. Að loknu eftirliti var bóndanum skýrt frá þeim frávikum sem eftirlitið hafði leitt í ljós. Bóndinn spurði þá eftirlitsmanninn í tvígang og í viðurvist lögreglu hvort hann ætti að skjóta hann.

Matvælastofnun lítur þessa hegðun mjög alvarlegum augum en í tilkynningu frá stofnuninni segir að ekki sé um einsdæmi að ræða. Yfirleitt gengur þó eftirlitið mjög vel.

Matvælastofnun hefur kært bæði brotin til lögreglu en í almennum hegningarlögum er að finna ákvæði sem segir að hver sá sem ræðst með ofbeldi eða hótunum um ofbeldi á opinberan starfsmann þegar hann er að gegna skyldustarfi sínu skuli sæta fangelsi allt að 6 árum. Beita megi sektum ef brot sé smáfellt.

Fyrri greinFrelsið til þess að ráða eigin málum
Næsta greinKambur og Brúnastaðir hlutu umhverfisverðlaun