Bólusetningu 60 ára og eldri að ljúka

Bólusetningarteymi á Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi að störfum. Ljósmynd/HSU

Á Heilbrigðisstofnun Suðurlands er verið að ljúka að bólusetja alla 60 ára og eldri. Þeir sem ekki hafa fengið bólusetningu úr þeim hópi geta fengið bólusetningu að morgni uppstigningardags í Vallaskóla á Selfossi.

Samhliða 60 ára og eldri hefur verið unnið að bólusetningu fólks með undirliggjandi vandamál og hafa flest allir nú þegar fengið boð, að sögn Elínar Freyju Hauksdóttur, umdæmislækni sóttvarna á Suðurlandi.

„Landlæknir sendir nýja lista oft í viku, þar sem verið er að bæta fólki við á forgangslista og búa til nýja lista. Við gerum okkar besta við að halda vel utan um þetta allt.  Einnig er verið að bólusetja sumarstarfsfólk í heilbrigðisgeiranum, umönnun, lögreglu og þess háttar,“ segir Elín Freyja.

Næst er komið að því að þeir fyrstu til að fá Astra Zeneca bóluefnið á Íslandi fái seinni sprautuna. Elín Freyja segir að konur yngri en 55 ára hafa val um að fá ekki Astra Zeneca aftur, en það sé ekkert því til fyrirstöðu að fá aftur Astra Zeneca ef konur hafi ekki fengið alvarleg viðbrögð eftir fyrstu bólusetninguna og hafi ekki sögu um sjálfsprottna bláæða-blóðtappa.

Óþarfi að hafa samviskubit
„Þar sem margir eru með frábendingar við ákveðnum bóluefnum eða þeirra hópur er skilgreindur fyrir ákveðin bóluefni, þá erum við oft að boða yngra fólk í bólusetningar sem hefur enga undirliggjandi sjúkdóma. Við biðlum til þess fólks að koma þegar það fær boð, það er algjör óþarfi að hafa samviskubit. Við munum bjóða öllum bólusetningu og einhver þarf alltaf að vera fyrstur,“ segir Elín Freyja ennfremur.

Á síðunni covid.is er hægt að fylgjast með framvindu mála í bólusetningum eftir landshlutum og þar sést að Suðurland er á pari við aðra landshluta.

„Við komum öllu bóluefni út sem okkur er úthlutað og úthlutuninn á landsvísu fer eftir fólksfjölda á hverjum stað. Einhver skekkja getur myndast þar sem árgangar geta verið misstórir í mismunandi byggðarlögum, sem sagt að einhver byggðalög eru komin lengra niður í árgöngum en önnur. Það getur skýrst af því að þar séu færri með undirliggjandi sjúkdóma eða fámennir árgangar hjá fólki 60 ára og eldri. Þetta ætti að jafnast út þegar endanum er náð,“ segir Elín Freyja að lokum.

Fyrri greinNemendur FSu gengu á Eyjafjallajökul
Næsta greinÞór skellti Þór óvænt