Bollywood og Hollywood á Suðurlandi

Óvenju mikið hefur verið að gerast í kvikmyndaverkefnum hér á landi það sem af er ári og hafa Sunnlendingar ekki farið varhluta af því.

Að sögn Gísla D. Reynissonar, eiganda Mýrdælings ehf. eru mörg verkefni framundan en horfur eru á að fjórar stórmyndir frá Hollywood verði að hluta til teknar upp á Suðurlandi á þessu ár.

Þegar er búið að kvikmynda vegna myndar Ben Stiller „The Secret Life of Walter Mitty” og myndar Russell Crowe „Noah”. Áður hafði mynd Tom Cruise „Oblivion” í leikstjórn Joseph Kosinski verið tekin upp hér.

Að sögn Gísla eru horfur á að enn ein myndin verði tekin upp nú seinni partinn í október. Þá verða atriði úr ofurhetjumyndinni „Thor 2” tekin upp í nágrenni Víkur í Mýrdal og er það að mestu frágengið að sögn Gísla.

Þá er verið að ganga frá myndatöku vegna norskrar kvikmyndar sem líka verður tekin upp í október eða nóvember. Sömuleiðis eru horfur á að myndataka vegna bandarísku sjónvarpsþáttanna „Game of Thrones” verði á þessum slóðum. Einnig er gert ráð fyrir að taka upp við Mývatn vegna þriðju þáttaraðarinnar af þessari vinsælu sjónvarpsseríu.

„Það er búið að vera óvenju gott í þessu í ár og aldrei verið svona mörg stór verkefni í einu. Þá sýnist manni að við séum að fá svo mikla kynningu í kringum þessi verkefni að það verði ekkert lát á þessu. Ég er að minnsta kosti bjartsýnn á framhaldið,” segir Gísli.

Hann sagði að mikið tilstand fylgdi þessum verkefnum og menn þyrftu að vera á vaktinni nánast allan sólarhringinn. Hann hafði meðal annars það hlutverk í kringum myndina um Nóa að keyra til hráefni og koma með vatn. Gísli sagðist þó ekki hafa verið látin bera á ábyrgð á syndaflóðinu sjálfu.

Óvenjulegasta verkefnið í sumar tengdist þó Bollywood mynd eða indverskri stórmynd sem hér var tekin upp að hluta í sumar. Vegna myndarinnar komu á milli 40 og 50 manns til landsins og stóðu myndatökur í hálfan mánuð en þetta var í annað sinn sem leikstjóri myndarinnar myndaði hér á landi.

Gísli segir að allur matur hafi verið fluttur alla leið frá Reykjavík fyrir fólkið sem ekki hefði viljað snæða annað en indverskan mat.

Þegar rætt var við Gísla var hann að vinna við auglýsingamynd við Skógafoss þannig að ekkert lát er á verkefnum.