Bókasafnið áfram lokað

Framkvæmdir standa yfir í bókasafninu á Selfossi. Ljósmynd/Bókasafn Árborgar Selfossi

Til stóð að Bókasafn Árborgar á Selfossi myndi opna aftur í dag vegna breytinga en af því verður ekki þar sem ýmsar tafir hafa orðið á framkvæmdum.

„Það er útlit fyrir að verkið tefjist enn meira og við biðjum bæjarbúa að fylgjast með okkur á facebook (Bókasafn Árborgar) og við munum uppfæra stöðuna þar,“ segir Heiðrún Dóra Eyvindardóttir, forstöðumaður bókasafnsins.

„Meðan enn er lokað viljum við biðja þá sem ætla að vera með okkur í leshring í vetur að senda okkur hugmyndir að góðum bókum til að lesa saman á bokasafn@arborg.is.  Leshringurinn er öllum opninn, hittist einu sinni í mánuði í lesstofunni og spjallar saman. Ef fólk lumar á góðum hugmyndum um barnastarfið í vetur, nú eða bara starfið almennt, þá á það ekki að hika við að senda okkur línu. Ef einhverjir hópar vilja hittast á safninu í vetur þá er það, eins og alltaf, meira en velkomið,“ bætir Heiðrún Dóra við.

„Svo vonum við bara að þetta fari allt að smella saman og við getum opnað fljótlega.
Starfsfólkið sendir bæjarbúum öllum, öldungaráðinu og leikskólabörnunum sérstaklega, saknaðarkveðjur og við hlökkum til að sjá ykkur öll,“ sagði Heiðrún Dóra að lokum.

Fyrri greinKvenfélagið styrkti Tintron myndarlega
Næsta greinLítið hlaup í Skaftá