Bókafeluleikur á Selfossi

Á bæjarhátíðinni Sumar á Selfossi um helgina munu Bókakaffið á Selfossi og Bókaútgáfan Sæmundur í samstarfi við alþjóðasamtök Bókaálfa (The Book Fairies World Wide) standa fyrir bókafeluleik undir merkjum bókaálfanna.

„Við gerum þetta auðvitað aðallega til þess að auka hróður bókarinnar. Það er alltaf verið að gefa okkur bækur og okkur langaði að gefa til baka líka,“ segir Harpa Rún Kristjánsdóttir, starfsmaður Bókakaffisins, en hún átti frumkvæðið að þessum viðburði.

„Innblásturinn að því að vera með í Book Fairy kom frá Emmu Watson og feminíska bókaklúbbnum hennar,“ bætir Harpa við, en bækurnar sem verða faldar eru ætlaðar finnendum sínum til eignar og ánægju.

Eins og áður segir verða fyrstu bækurnar faldar á Sumar á Selfossi um helgina en seinna er stefnt að því að sérmerktar bækur verði faldar víðsvegar um landið.

Þeir sem finna bækur eru hvattir til þess að deila fundnum bókum á Instagram undir myllumerkinu #ibelieveinbookfairies en hægt verður að fylgjast með felustöðum undir þessu sama myllumerki og á samfélagsmiðlum Bókakaffisins. Þannig hefur verið stofnaður Facebookviðburður undir heitinu „Bókaálfar á Selfossi“.

Fyrri greinGrímsævintýri á laugardag
Næsta greinHellisheiði lokuð