Bók um fjármál fyrir ungt fólk

Komin er út hjá Skólavefnum bók um fjármál fyrir ungt fólk, Hvað kosta ég?, eftir Ölfusinginn Daða Rafnsson.

Bókin er 77 blaðsíður að lengd og innheldur stuttar fjármálaskýringar á mannamáli ásamt fjölda verkefna og umræðuefna. Höfundur bókarinnar, Daði Rafnsson frá Bræðrabóli í Ölfusi, segir að bókin sé ætluð þeim sem eru að stíga sín fyrstu skref í fjármálum og henti bæði vel til kennslu í lífsleikni á grunnskóla- og framhaldsskólastigi, og eins fyrir foreldra og börn þeirra til að lesa saman.

Jafnframt hefur verið opnuð vefsíðan www.fjarmalaskolinn.is sem styður við bókina með myndböndum og reiknivélum. Fjármálaskólinn býður einnig upp á námskeið fyrir þá áhugasömustu.

„Fjármál koma okkur öllum við, og því miður er fjármálafræðsla ekki enn orðin skyldufag í grunnskólum né menntaskólum. Við teljum okkur vera að svara kalli kennara og foreldra sem vilja að ungt fólk nú til dags hljóti betri undirbúning hvað góða meðferð peninga varðar heldur en við sem eldri erum,” sagði Daði í samtali við sunnlenska.is.

„Samkvæmt skýrslum frá Viðskiptaráðuneytinu, OECD og ESB er efnahagskrísan sem hinn vestræni heimur glímir við ekki síst tilkomin vegna breyttrar heimsmyndar, flóknari afurða og ónógs skilnings hins almenna borgara á fjármálum. Þetta er ekki séríslenskt vandamál, en við teljum að því fyrr sem ungt fólk er frætt um það hvernig peningar hafa áhrif á líf okkar sé það betur undirbúið undir framtíðina.“

Í bókinni er meðal annars velt upp spurningum á borð við hvað það kostar að vera til, hvort munur sé á peningum og verðmætum, hvernig á að lesa launaseðilinn sinn og hvers vegna það borgar sig að spara. Einnig er útskýrt hver munurinn er á nafnvöxtum og raunvöxtum, hvaða áhrif verðbólga hefur á kaup og kjör neytenda, auk fjölda annarra hugtaka.

Nú þegar hafa nokkrir grunnskólar tekið Hvað kosta ég? til kennslu í lífsleikni, en fjármálafræðsla er ekki á námskrá í íslenskum skólum. „Vegna þessa er bókin seld í smásölu, svo að foreldrar og aðrir aðstandendur ungra barna geti byrjað strax,“ segir Daði. „Við leggjum einnig mikla áherslu á að efnið sé óháð auglýsendum. Þannig er engin fjármálastofnun eða símafyrirtæki með skilaboð á kápu bókarinnar eða á vefsíðunni. Áhrif auglýsenda á börn og unglinga eru umtalsverð, en við viljum að þau læri sjálf um fjármál og peninga, með aðstoð foreldra og skóla.“

Fyrri greinSlapp ómeiddur úr bílveltu
Næsta greinBrýnt að hefja framkvæmdir