Boða rekstaraðila til viðræðna um lágvöruverslun á Flúðum

Flúðir. Ljósmynd/Hera Hrönn Hilmarsdóttir

Sveitarstjórn Hrunamannahrepps ætlar að boða rekstraraðila lágvöruverslana til viðræðna um uppbyggingu á lágvöruverslun í sveitarfélaginu.

Í júní fór af stað undirskriftarsöfnun í hreppnum þar sem skorað var á rekstraraðila lágvöruverðsverslana að opna verslun í hreppnum. Áskorunin og undirskriftarlistinn voru kynnt á síðasta fundi sveitarstjórnar en alls skrifuðu 652 einstaklingar undir listann. 

Í bókun sveitarstjórnar kemur fram að hún taki heilshugar undir áskorunina og taki málið alvarlega. Sveitarstjórn mun koma áskoruninni á framfæri auk þess að boða rekstraraðila lágvöruverslana til viðræðna.

„Að geta verslað í heimabyggð vörur á viðráðanlegu verði er hluti af grunnþjónustu sem skiptir miklu máli í almennum lífskjörum íbúa í sveitarfélaginu en hátt vöruverð á svæðinu kemur mest niður á þeim sem hafa ekki kost á að fara annað til að versla. Það er líka nauðsynlegt að okkar fjölmörgu gestir hafi kost á því að versla á viðráðanlegu verði. Einnig má geta þess að það að geta fækkað ferðum í næstu lágvöruverslun sem staðsett er á Selfossi og myndi leggja lóð á vogarskálarnar í að minnka kolefnisútblástur,“ segir í bókun sveitarstjórnar Hrunamannahrepps.

Fyrri greinLokanir hjá Árborg vegna smits
Næsta greinJafntefli í Þorlákshöfn