Bobles eflir grunnhreyfiþroska barna

Nýverið ákváðu hjónin Hjördís G. Brynjarsdóttir og Pétur Gunnarsson á Hellu að setja á stofn fyrirtækið Dkdesign þar sem boðið er upp á danskar hönnunarvörur undir nafninu Bobles.

Um er að ræða barnahúsgögn sem hægt er að nota á ýmsa vegu og stuðla að því að börn allt frá fæðingu efli grunnhreyfiþroska. Húsgögnin eru hönnuð af dönskum arkitekt sem fékk hugmyndina þegar hún sjálf var í fæðingarorlofi en henni fannst vanta húsgögn fyrir börn sem hefðu eitthvað meira notagildi en að vera bara húsgögn.

Hjördís og Pétur eru búsett á Hellu en Hjördís er fædd þar og uppalin. Hún hefur búið þar frá árinu 2008 þegar hún snéri aftur úr námi í Danmörku. Hjördís er menntaður sjúkraþjálfari og starfar á Hjúkrunar- og dvalarheimilinu Lundi á Hellu. Þau hjónin eiga þrjá syni, Atla 6 ára, Bóas Óla 4 ára og Andra Fannar 10 mánaða.

Fengu Bobles í sængurgjöf
„Við höfum þekkt Bobles vörurnar frá því elsti sonur okkar fæddist 2010, en tengdamóðir mín er barnasjúkraþjálfari og vinnur við það í Danmörku. Hún kom okkur í kynni við Bobles og gaf okkur fyrstu húsgögnin í sængurgjöf, síðan höfum við eignast nokkur í viðbót. Börnin okkar elska að leika og hnoðast með Bobles,“ segir Hjördís og bætir við að fyrst að Bobles vörurnar hafi ekki verið fáanlegar hér á landi hafi ekki annað verið í stöðunni en að flytja þær inn, svo íslensk börn fengju einnig að kynnast þeim.

Kjúklingur og krókódíll
Hjördís segir að Bobles vörurnar hafi verið notaðar í dönskum grunnskólum með góðum árangri þar sem börnin hafi meðal annars setið á „ormi“ sem gerir það að verkum að þau þurfa ekki að sitja kyrr eins og á stólum.

„Bobles hefur einhverskonar dýraútlit, eins og til dæmis fíll, kjúklingur eða krókódíll. Hvert og eitt dýr getur síðan gagnast sem stóll, kollur, borð og jafnframt er hægt að leika sér með hvert og eitt og örva þannig hreyfiþroskann um leið.“

Hannað með grunnhreyfiþroska barna í huga
Að sögn Hjördísar er mikilvægt að börn fái næga örvun á meðan þau eru að þroskast. „Bobles er hannað með grunnhreyfiþroska í huga og þróunina frá því að liggja á maganum þar til barn getur hlaupið og hoppað um. Þessir fimm þættir sem lögð er áhersla á er að liggja á maga, rúlla og skríða, standa upp og ganga, hoppa og jafnvægi. Hreyfing á að vera skemmtileg og börn geta aldrei hreyft sig of mikið,“ segir Hjördís.

Nýtast börnum með skerta hreyfifærni
Hjördís telur að Bobles komi til með að nýtast börnum með skerta hreyfigetu vel en danskir sjúkraþjálfarar nota húsgögnin á meðferðarstofum þar í landi.

„Í sumum tilvikum er foreldrum ráðlagt af sjúkraþjálfara að fá sér eitthvert dýranna til að örva hreyfiþroska heimavið. Ef börn með skerta hreyfifærni eiga t.d. fílinn heima hjá sér þá geta foreldrar örvað alla þætti hreyfiþroskans daglega heima og síðan börnin sjálf þegar þau eldast og styrkjast. Ef þau eiga orminn til að sitja á, þá styrkja þau búkvöðva, sitja rétt og efla jafnvægi og svona mætti lengi telja.“

Þeir sem vilja kynna sér Bobles vörurnar nánar geta fengið frekari upplýsingar á heimasíðunni dkdesign.is

Fyrri greinÚtskrifast frá Reykjum
Næsta greinUppsprettan í Skeiða- og Gnúpverjahreppi