Boðunaræfing vegna Kötlu

Á morgun mun almannavarnanefnd Rangárvalla- og V-Skaftafellssýslu í samavinnu við Neyðarlínuna og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra standa fyrir boðunaræfingu á áhrifasvæði hugsanlegs Kötlugos eða frá Hvolsvelli að Kirkjubæjarklaustri.

Æfingin verður framkvæmd milli kl.11:00 og 12:00 með þeim hætti að SMS verða send í alla farsíma á svæðinu til að kanna dreifingu skilaboðanna.

Skilaboðin verða á íslensku og ensku og verða svo hljóðandi:

ÆFING, Fjarskiptaæfing vegna Kötlu. Ekki þörf á svörun, ÆFING. – TEST, Police Emergency Information System, no need to reply, TEST

Allir farsímar á svæðinu ættu að fá ofangreind skilaboð.

Frá því að eldgosinu í Eyjafjallajökli lauk (árið 2010) hefur verið unnið í að bæta farsímasamband á svæðinu m.a. með uppsetningu nýrra senda. Auk þess hefur Neyðarlínan tekið í notkun kerfi sem getur sent SMS skilaboð í alla farsíma á tilteknu svæði óháð símafyrirtæki og þjóðerni. Kerfið var prófað nokkrum sinnum á síðasta ári og gáfu þær prófanir góða raun.

Mikilvægt er að allir sem eru á svæðinu og fá ekki boð í sína síma komi því á framfæri við lögregluna á Hvolsvelli með því að senda tölvupóst á sveinnr@logreglan.is. Í póstinum þarf að koma fram nafn, símanúmer, nafn símafyritækis og staðsetningu viðkomandi milli kl.11:00 og 12:00 þann 15. mars.

Tilgangur æfingarinnar er að kanna virkni kerfisins og hvort að skilaboð komist til allra sem eru á svæðinu.

Fyrri greinBjörgvin G.: Evra í gegnum aðild – Bjargráð út úr blindgötu
Næsta greinLögbannsmálinu skotið til dómstóla