Boðin bárust í 6.166 síma

Milli kl.11:00 og 12:00 í dag var framkvæmd viðamikil prófun á boðunarkerfi almannavarna á áhrifasvæði hugsanlegs eldgos í Kötlu, eða frá Hvolsvelli í vestri að Kirkjubæjarklaustri í austri.

Prófunin var að frumkvæði almannavarnanefndar Rangárvalla og V-Skaftafellssýslu með aðstoð Neyðarlínunnar og almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra.

Æfingin var framkvæmd með þeim hætti að send voru SMS skilaboð í alla farsíma sem tengdir voru við GSM senda á svæðinu.

Skillaboði voru svo hljóðandi: ÆFING, Fjarskiptaæfing vegna Kötlu. Ekki þörf á svörun, ÆFING. – TEST, Police Emergency Information System, no need to reply, TEST

Kerfið sem Neyðarlínan notar til að senda svona skilaboð gerir almannavörnum kleift að senda SMS í alla farsíma sem eru á tilteknu svæði óháð símafyrirtæki og þjóðerni.

Samkvæmt upplýsingum úr kerfi Neyðarlínunnar bárust boðin í alls 6.166 síma. Af þeim eru rúmlega 100 símanúmer skráð erlendis og því væntanlega um að ræða erlenda ferðamenn sem voru á svæðinu þegar prófunin var framkvæmd.

Auk þess voru send boð á alla viðbragðsaðila sem virkjaðir eru þegar viðbragðsáætlun vegna eldgoss undir Mýrdalsjökli er virkjuð.

Þeir sem voru á svæðinu á þegar prófunin fór fram en fengu ekki boð eru beðnir að setja sig í samband við lögregluna á Hvolsvelli með því að senda tölvupóst á sveinnr@logreglan.is. Í póstinum þarf að koma fram nafn, símanúmer, nafn símafyritækis og staðsetningu viðkomandi milli kl.11:00 og 12:00 þann 15. mars.

Fyrri greinLenti í sjálfheldu undir bryggjunni
Næsta greinKFR sneri leiknum við – Hamar tapaði