Boðið út í næsta mánuði

Að líkindum verður gerð nýs sjóvarnargarðs í Vík í Mýrdal boðin út í næsta mánuði. Þetta segir Ásgeir Magnússon, sveitarstjóri í Mýrdalshreppi.

Búið er að úthluta um 40 milljónum króna til verksins á fjárlögum þessa árs og reiknað er með að um 100 milljónir króna til viðbótar fáist á fjáraukalögum. Verið er að velja hentugt grjót til að flytja í garðinn og hönnun hans er í undirbúningi. Þá verður farið í dýptarmælingu á svæðinu á næstu dögum en garðurinn á að koma austan megin við núverandi garð.

Að sögn Ásgeirs er um að ræða verkefni til tveggja ára. „Mér skilst að það verði boðið út sem slíkt,“ segir hann.

Alda braut mikið svæði á ströndinni í þorpinu í Vík í vetur, einkum í slæmu veðri í desember. Þá kom einnig glögglega í ljós hversu mikla vörn gamli garðurinn veitir. Hann er þó farinn að láta á sjá eftir sjávarbarning undanfarinna ára.

Sveitarstjórnarmaður sem Sunnlenska ræddi við sagði að ágangur sjávar sýndi mikilvægi þess að ráðast í framkvæmdina strax, og velti upp þeim möguleika að sveitarfélagið aflaði sjálft fjár til verksins. „Það kemur vart til greina, staðan leyfir það ekki,“ segir Ásgeir aðspurður um þann möguleika.

„Hér er vissulega um ákveðið tilraunaverkefni að ræða og alfarið á hendi ríkisins,“ segir hann og bendir á að heildarkostnaður geti orðið um 350 milljónir á umræddum tveimur árum.

Fyrri greinKK í Hveragerði
Næsta greinTM Selfossi vann HSK mótið í sveitakeppni