Blómasalar á ferðinni á hálendinu

Hin árlega blómasala Björgunarfélagsins Eyvindar á Flúðum gekk vel þetta árið. Eyvindur fór víða í sölunni á konudaginn og renndi meðal annars upp á Dómadal til að selja blóm.

Þaðan hafði borist neyðarkall frá nokkrum ungum herrum sem vantaði blóm handa elskunum sínum. Eyvindur brunaði auðvitað á svæðið, ekki fjarri Landmannahelli á Dómadalsleið og hjálpaði mönnunum með fallega rósavendi.

Svo farið sé nánar í saumana á þessari sögu þá voru félagar í Björgunarfélagi Árborgar í æfingaferð í Hrafntinnuskeri á sunnudaginn. Á heimleiðinni bilaði snjóbíll sveitarinnar og fengu þeir félaga úr Eyvindi til að koma til móts við sig.

„Við sáum ekki fram á að koma snemma heim þannig að við báðum þá um að taka með sér blóm fyrst þeir voru að selja. Dómadalur er kannski ekki fyrsti staðurinn sem manni dettur í hug þegar mann vantar blóm en við fengum snögga og góða þjónustu hjá Eyvindi sem er klárlega með bestu blómasölu á landinu,“ sagði Björgvin Óli Ingvarsson, björgunarsveitarmaður á Selfossi, í samtali við sunnlenska.is.

Fyrri greinGjörbreyttar aðstæður við Flóaskóla
Næsta greinEnn hækkar í Ölfusá