Blómakjólar í blómlegum bæ

Konur eru hvattar til að mæta í blómakjólum á Garðyrkju- og blómasýninguna Blóm í bæ sem haldin verður í Hveragerði um næstu helgi.

Bæjarfélagið er nú að taka á sig endanlega mynd fyrir sýninguna en nú verður það með líflegra móti því þemað í ár er sirkus.

Skreytingar eru litríkar og blóm í öllum regnbogans litum eru komin í beð og ker út um allan bæ. Blómaskreytar skapa fjölbreyttar skreytingar úr hráefni sem blóma- og garðplöntuframleiðendur leggja til. Sýningin er nú haldin í fjórða sinn en undanfarin ár hefur hún dregið til sín tugþúsundir gesta á öllum aldri.

Fjöldi viðburða á sviði garðyrkju, umhverfismála og íslenskrar framleiðslu verður á sýningunni. Auk opinna sýningarsvæða við Breiðumörk, í Listigarðinum og á svæðinu við íþróttahúsið, verður sölusvæði í íþróttahúsinu þar sem fyrirtæki sem tengjast græna geiranum kynna vörur sínar.

Fjölmargir viðburðir verða á sýningunni, blómabingó, örfyrirlestrar, fræðslu- og sögugöngur, blómamyndataka fyrir alla, Sirkus Island kemur í heimsókn, blómakaka ársins 2012 verður valin ásamt fallegasta mini-garðinum.

Dagskrá laugardagsins lýkur síðan með garðasúpu sem í boði er í nokkrum völdum görðum í Hveragerði.

Á sunnudeginum má síðan minna á að þá keppa forsetaframbjóðendur við aðra landsfræga einstaklinga í Plöntupúli sem sló rækilega í gegn í fyrra.

Sýningin er nú haldin í fjórða sinn en þetta er stærsta sýning græna geirans á Íslandi. Þeir sem standa að sýningunni eru: Hveragerðisbær, Samband garðyrkjubænda (Félag garðplöntuframleiðenda og Félag blómaframleiðenda), Grænn markaður, Landbúnaðarháskólinn, Félag blómaskreyta, Garðyrkjufélag Íslands.

Fyrri greinYfirburðir Ægis í eins marks sigri
Næsta grein„Það er hægt að mála á allt“