Blómahelgin mikla hafin

Garðyrkju- og blómasýningin Blóm í bæ var formlega sett á Fossflöt í Hveragerði síðdegis í dag.

Um helgina er landsmönnum öllum boðið til veglegrar veislu í samvinnu Hveragerðisbæjar og allra fagfélaga græna geirans á Íslandi. Er þetta í þriðja sinn sem haldin er sameiginleg sýning þessara aðila. Hefur góður rómur verið gerður að fyrri sýningum og hafa þær laðað að mikinn mannfjölda.

Dagskrá helgarinnar er afar fjölbreytt og metnaðarfull en allt sem tengist garðyrkju, umhverfismálum og íslenskri framleiðslu verður á sýningunni. Sýningar, örfyrirlestrar, tískusýning blómanna og ýmsar keppnir verða allan sýningartímann ásamt líflegri markaðsstemning á sýningarsvæðinu.

Samkeppni landslagsarkitekta, blómaskreytingar út úm allan bæ og og þúsundir afskorinna blóma á risablómasýningu ásamt sýningu á íslenskum matjurtum, grænmeti og kryddjurtum verður sett upp.

Í ár er þema sýningarinnar “skógur” í tilefni af því að Sameinuðu þjóðirnar hafa valið þetta ár sem Ár skóganna. Af því tilefni kemur Skógrækt ríkisins og Skógræktarfélag Íslands veglega að sýningunni í ár.

Setningin í dag var í anda norrænna Jónsmessuhefða, reist var blómastöng, sungið og brauð grillað á teinum yfir opnum eldi. Sýningarsvæðið opnar síðan formlega á morgun, föstudag kl. 12 en sýningunni lýkur á sunnudaginn kl. 18.