Blóm og býflugur frá Litla-Hrauni

Pattaralegar býflugur og brosandi froskar frá Litla-Hrauni munu prýða Hveragerði um helgina þar sem blómasýningin Blóm í bæ verður haldin.

Undirbúningur fyrir sýninguna er í fullum gangi en meginþema Blóm í bæ þetta árið er Börn og ævintýri. Skreytingarnar bera þess merki en m.a. hafa fangar á Litla-Hrauni unnið að skreytingum með því að saga út myndir sem prýða munu bæinn.

Elfa Dögg Þórðardóttir, verkefnastjóri sýningarinnar, sótti afraksturinn á Litla-Hraun í morgun og var heldur betur ánægð með hvernig til tókst. „Við vissum af því að það vantaði verkefni fyrir fangana og hér eru miklir listasmiðir sem gátu klárað verkið fljótt og vel,“ sagði Elva Dögg í samtali við sunnlenska.is.

Sýningin Blóm í bæ hefst eftir hádegi á föstudag og stendur fram á sunnudag.

Fyrri greinValdís og Gurrý í Selinu í kvöld
Næsta greinÖskuský sjást öðru hvoru