Blindfullur og stjórnlaus á Suðurlandsvegi

Lögreglan við hraðamælingar. Mynd úr safni. Ljósmynd/Lögreglan

Á þriðjudaginn í síðustu viku stöðvaði lögreglan á Suðurlandi bíl sem mældist á 142 km/klst hraða á Suðurlandsvegi, rétt vestan við Hvolsvöll. Þar er leyfður hámarkshraði 90 km/klst. Ökumaðurinn var ofurölvi en áfengismagn í blóði hans mældist 1,57 prómill.

Samkvæmt töflu á heimasíðu FÍB þýðir það að maðurinn hafi haft alvarlega skerðingu líkamlegrar og andlegrar starfsemi og átt erfitt með að standa, ganga og tala. Ökumaður með yfir 1,5 prómill í blóði er með verulega brenglaða skynjun og dómgreind, ekur í þokumóðu og hefur nánast enga stjórn á ökutæki.

Sektargreiðsla mannsins hljóðaði upp á 420 þúsund krónur og hann var sviptur ökuréttindum í 18 mánuði.

Annar ökumaður missti prófið í síðustu viku en hann var á 163 km/klst hraða á Suðurlandsvegi við Dalsel austan við Hvolsvöll á fimmtudag. Þar er leyfður hámarkshraði er 90 km/klst og lauk bílstjórinn máli sínu með sektargreiðslu upp á 230 þúsund krónur ásamt viðeigandi sviptingu ökuréttar í þrjá mánuði.

Alls voru 36 ökumenn kærðir fyrir hraðakstur í liðinni viku í umdæmi lögreglunnar á Suðurlandi.

Fyrri greinMike Phillips til Hamars
Næsta greinEkki sitja of lengi í gufunni