Bleika slaufan afhjúpuð á Selfossi

Svanhildur Ólafsdóttir og Greta Önundardóttir ásamt Erlu G. Sigurjónsdóttur, starfsmanni Krabbameinsfélags Árnessýslu, við opnun sýningarinnar í Krónunni í dag. sunnlenska.is/Jóhanna SH

Í dag, föstudaginn 28. september, hófst árvekni- og fjáröflunarátak Krabbameinsfélags Íslands, Bleika slaufan.

Félagið hefur undanfarin 11 ár tileinkað októbermánuð baráttu gegn krabbameinum hjá konum. Í ár er lögð áhersla á þátttöku kvenna í skimun og mikilvægi þess að vinahópar hvetji sínar konur til að mæta í krabbameinsleit auk þess að styðja ef kona greinist með krabbamein.

Ljósmyndasýningin BLEIK var opnuð í Krónunni á Selfossi í dag þar sem Bleika slaufan 2018 var einnig afhjúpuð. Sýningin byggir á persónulegum sögum tólf kvenna sem greinst hafa með brjósta- eða leghálskrabbamein og farið í meðferð en einnig er fjallað um mikilvægi vinahópa í því ferli.

Ásta Kristjánsdóttir, ljósmyndari, Sóley Ástudóttir, förðunarfræðingur, Anna Clausen, stílisti og Sigríður Sólan, blaðamaður, eiga veg og vanda að sýningunni sem sýnd er á fjórum stöðum á landinu og stendur út októbermánuð. Aðrir sýningarstaðir eru Kringlan í Reykjavík, Glerártorg á Akureyri og Ráðhús Reykjanesbæjar.

Hönnuður Bleiku slaufunnar að þessu sinni er Páll Sveinsson, gullsmíðameistari hjá Jóni og Óskari, en hann sigraði í samkeppni Krabbameinsfélagsins og Félags íslenskra gullsmiða um hönnun Bleiku slaufunnar. Bleika slaufan 2018 táknar umhyggjuna og tárin sem geta fylgt því þegar einhver greinist með krabbamein.

Bleika slaufan er seld í fjölmörgum verslunum um allt land og í vefverslun Krabbameinsfélagsins. Hún kostar 2.500 krónur, en einnig er takmarkað upplag af silfurhálsmeni sem selt er hjá félaginu og völdum gullsmiðum um landið.

Söfnunarfé Bleiku slaufunnar verður varið til þeirrar fjölbreyttu starfsemi sem Krabbameinsfélagið stendur fyrir, með sérstakri áherslu á krabbamein hjá konum og hvatningu um að mæta í skimun fyrir brjósta- og leghálskrabbameinum.

Fyrri greinAldís kosin formaður
Næsta greinEgill tapaði gegn heimsmeistaranum