Bleika boðið á Selfossi

Guðlaug Stella Hafsteinsdóttir er ein þeirra sem skipuleggja Bleika boðið á Selfossi. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Föstudaginn 26. október kl. 20:30 verður Bleika boðið haldið í Tryggvaskála á Selfossi. Þetta er í fyrsta sinn sem Bleika boðið er haldið en það er fjáröflunarsamkoma fyrir Krabbameinsfélag Árnessýslu.

„Upprunalega kom hugmyndin í fyrra en það varð aldrei neitt úr henni. Svo var ákveðið að slá til í ár og var byrjað að skipuleggja í byrjun september,“ segir Guðlaug Stella Hafsteinsdóttir, einn af skipuleggjendum Bleika boðsins, í samtali við sunnlenska.is.

„Bleika boðið er fyrir alla, konur og kalla, bæði með hár og skalla. Það er frítt inn en seldir verða happdrættismiðar á 1.500 kr. í dyrunum og rennur ágóðinn af þeim beint til Krabbameinsfélagsins.“

„Vínveitingar verða seldar á barnum og í boði verður pinna-matur frá Tryggvaskála. Sigga Kling er veislustjóri og heldur uppi stemmningunni ásamt söngatriðum frá Magnúsi Kjartani, Aldísi Elvu og Hugrúnu Tinnu,“ segir Guðlaug Stella að lokum.

Facebook-viðburður Bleika boðsins

Fyrri greinÁrborg styrkir handknattleiksdeildina vegna þátttöku í EHF-bikarnum
Næsta greinFlekar fagna útgáfu á Húrra