Blávatn í lögnum í Hveragerði

Í dag, föstudag, þurfa húseigendur í Hveragerði að gæta að ofnum og hitaveitukerfi í húsum sínum. Bláu litarefni verður bætt í hluta heitavatnskerfisins.

Ástæðan er sú að Orkuveita Reykjavíkur hyggst blanda bláu litarefni í heita vatnið þar sem tvöfalt kerfi hitaveitu er í Hveragerði.

Með því vill hún leita að leka í kerfinu en frá því að OR hóf að reka kerfið hefur talsvert vatn tapast útaf því. Vatn úr dreifikerfinu er notað beint á miðstöðvakerfi í húsum, en kranavatn er kalt vatn, upphitað í varmaskiptum til neyslu. Það ætti því ekki að renna blátt vatn úr krönum fólks en ef ofnar eða lagnir í veggjum eða gólfum leka er hætt við því að blár vökvinn láti sjá sig.

„Mínar áhyggjur eru fyrst og fremst þær að ef leki er á ofnakerfi gæti blái liturinn komist í teppi eða parket. Fólk verður því að vera á varðbergi,“ sagði Guðmundur Baldursson fulltrúi hjá Hveragerðisbæ í samtali við Sunnlenska. Fólk ætti hinsvegar erfiðara með að greina slíkan leka ef hann er í miðstöðvarlögnum undir gömlum húsum.

„Sé þessi leki hinsvegar til staðar alla jafna ætti fólk að verða vart við slík vegna óheyrilega mikillar vatnsnotkunar í húsum með tilheyrandi háum reikningum,“ segir Guðmundur. Hann telur meiri líkur til þess að lekinn sé í lögnun í gatnakerfinu. Hinsvegar sé rík ástæða til að kanna hvort einhversstaðar séu rangar tengingar þar sem heilmikið af vatni sé að tapast.