Bláskógabyggð er Sveitarfélag ársins 2025

Sveitarstjórarnir tóku við viðurkenningunum. (F.v.) Sylvía Karen Heimisdóttir, Skeiða- og Gnúpverjahreppi, Aldís Hafsteinsdóttir, Hrunamannahreppi, Ásta Stefánsdóttir, Bláskógabyggð og Fjóla St. Kristinsdóttir, Grímsnes- og Grafningshreppi.

Bláskógabyggð er Sveitarfélag ársins 2025 á Íslandi byggt á viðhorfskönnun félagsfólks bæjarstarfsmannafélaga og stéttarfélaga innan BSRB. Sveitarfélögin fjögur í uppsveitum Árnessýslu röðuðu sér í fjögur efstu sætin.

Könnunin er gerð í samstarfi við Gallup en viðurkenningin er veitt fyrir bestu heildarniðurstöðu þátta sem stuðla að blómlegu og heilbrigðu starfsumhverfi starfsfólks sveitarfélaga.

Önnur sveitarfélög sem hlutu viðurkenningu í ár og eru í 2.-4. sæti eru Grímsnes- og Grafningshreppur, Hrunamannahreppur og Skeiða- og Gnúpverjahreppur, en frá upphafi hafa sveitarfélögin í Uppsveitum Árnessýslu raðað sér í flest efstu sætin í könnuninni.

Tilgangurinn með könnuninni er að hvetja stjórnendur sveitarfélaga til að veita starfsumhverfi meiri athygli og ráðast í umbótaverkefni þar sem þess er þörf. Einnig er ætlunin að niðurstöðurnar skapi almenna umræðu um starfsumhverfi og stjórnun á vinnustöðum og að veita góðum vinnustöðum viðurkenningu fyrir að hlúa vel að starfsfólki.

Fyrri greinKK kemur fram á kósýkvöldi í miðbænum
Næsta greinRafmagnslaust í hluta Bláskógabyggðar aðfaranótt föstudags