Blæösp í Hvammi tré ársins í Hrunamannahreppi

Á uppskeruhátíðinni Matarkistunni í lok ágúst veitti Skógræktarfélag Hrunamanna verðlaun fyrir tré ársins, eins og gert hefur verið undanfarin ár.

Þetta árið voru það þau heiðurshjón Jóhannes Helgason og Kristín Karlsdóttir  í Hvammi sem hlutu verðlaunin fyrir glæsilega blæösp.

Blæösp, (l. Populus tremula) hefur fundist villt á örfáum stöðum á landinu, aðallega á Norður- og Austurlandi. Hún þolir illa beit og hefur því væntanlega verið útrýmt þar sem beit hefur verið mikil fyrr á árum. Blæösp er oftast fjölgað með rótarskotum og finnst nokkuð víða í görðum.

Tréð í Hvammi er afkomandi trés sem Ragnar Ásgeirsson garðyrkjuráðunautur fann við Laugarvatn og plantaði því við húsið Hlíð, nálægt gamla Héraðsskólanum. Pétur Þorvaldsson, sem rak um tíma garðyrkjustöðina við Laugarvatn tók græðlinga af umræddu tré og gaf Jóhannesi og Kristínu litla plöntu, sem þau plöntuðu við plöntusöluna í Hvammi um 1993.

Tréð er núna um 10 metrar á hæð, beinvaxið og fallegt.
Fyrri greinKvenfélag Hveragerðis gaf CRP tæki á HSU
Næsta greinHaldið upp á 70 ára afmæli Skógasafns