Blæs byrlega fyrir vindmyllum í Þykkvabæ

Hreppsráð Rangárþings ytra hefur samþykkt aðalskipulagsbreytingar á landi Hábæjar í Þykkvabæ. Breytingin heimilar fyrirtækinu Biokraft ehf. að reisa tvær vindmyllur til orkuöflunar fyrir Kartöfluverksmiðjuna í Þykkvabæ.

Frestur til að skila inn athugasemdum við nýtt aðalskipulag er til og með 10. október næstkomandi.

Fyrirhugað vindmyllusvæði liggur utan við þéttbýliskjarna Þykkvabæjar og er um þessar mundir notað til beitar. Áætlað er að mannvirkin hafi óveruleg áhrif á nærliggjandi umhverfi sem og stofnstærð fugla á svæðinu. Vindmyllur, sem stíga 52 metra upp úr flatlendi Þykkvabæjar, hefðu fyrst og fremst sjónræn áhrif, samkvæmt gögnum skipulagsfulltrúa Rangárþings ytra.

Þorgils Torfi Jónsson, formaður hreppsráðs, telur það kost fremur en galla, að vindmyllurnar muni sjást langar leiðir. „Þær verða kennileiti og munu vekja forvitni fólks á þessu frumkvöðlastarfi í orkunýtingu,“ segir hann í samtali við Sunnlenska.

Sjá nánar í Sunnlenska fréttablaðinu

Fyrri grein63 hektara skógur til sölu
Næsta greinSala eins og fyrir hrun