Björn Ingi til liðs við Vestfirska forlagið

Björn Ingi Bjarnason, hrútavinur með meiru á Eyrarbakka, hefur hafið störf hjá Vestfirska forlaginu sem kynningarfulltrúi.

Í tilkynningu frá forlaginu segir að Björn Ingi hafi lagt gjörva hönd á margt um dagana og hefur hvers konar félagsmálastarf verið honum mjög hugleikið.

Björn Ingi, sem er frá Flateyri, hefur um langt skeið verið formaður Önfirðingafélagsins og veitt forystu mjög umfangsmiklu sjálfboðastarfi í útgáfumálum á vegum þess til að kynna heimabyggðina og Vestfirði almennt.

Þá hefur hann verið umsjónarmaður vefsíðu félagsins, flateyri.is sem hefur vakið mikla athygli fyrir fjölbreytt og vandað efni. Hér sunnan lands hefur hann víða komið við í menningarmálum, er forsprakki hrútavina auk þess sem hann skrifar í Sunnlenska fréttablaðið og á vefinn stokkseyri.is svo eitthvað sé nefnt.

Bæjarins besta greindi frá þessu

Fyrri greinHafa tekið við af Eden
Næsta greinStálu bíl og sjónvarpi á meðan eigandinn svaf