Björn hlaut umhverfisviðurkenningu Hveragerðis

Björn Pálsson, fyrrverandi skjalavörður, hlaut umhverfisviðurkenningu Hveragerðisbæjar árið 2013, sem veitt var af forseta Íslands, hr. Ólafi Ragnari Grímssyni, á sumardaginn fyrsta.

Fram kom í máli Ninnu Sifjar Svavarsdóttur sem kynnti viðurkenninguna að Björn hefur verið fremstur í flokki náttúruverndarsinna í Hveragerði og þó víðar væri leitað um langt árabil. Hann hefur vakið athygli fyrir skelegga baráttu sína gegn ýmsum þeim framkvæmdum sem hann telur að geti rýrt dýrmæt útivistarsvæði í nágrenni höfuðborgarsvæðisins og Hveragerðis. Ekki síst hefur hann borið hag hins dýrmæta útivistarsvæðis ofan Hveragerðis fyrir brjósti en auk þess hefur hann beitt sér víðar eins og barátta hans um verndum Þingvallavatns ber vitni um.

Björn hefur séð um fjölda skipulagðra gönguferða um svæðið í kringum Hveragerði til fjölda ára og vandfundinn er sá einstaklingur sem býr yfir meiri þekkingu á nærumhverfi bæjarins en hann gerir.

Björn sagði við athöfnina að viðurkenningin væri honum kærkomin þakkaði hann bæjarstjórn kærlega fyrir heiðurinn og sagði um leið: “Einlægur stuðningur flestra Hvergerðinga hefur þó veitt mér mestan styrk og úthald undanfarin ár. Í upphafi þeirrar baráttu sögðu margir: “Þetta er tilgangslaust því ekkert mark verður tekið á neinum mótmælum.” Sem betur hefur sú ekki orðið raunin. Grænsdalur er óvirkjaður, Bitra komin í vernd og nú síðast hefur Orkuveita Reykjavíkur ákveðið að virkja ekki meira á Hellisheiðarsvæðinu næstu ár.”

Fyrri greinAuglýst eftir verkefnisstjóra innflytjendamála
Næsta greinVantar þig aðstoð fyrir lokaprófin?