Björn Bjarndal nýr umdæmisstjóri Rótarý á Íslandi

Björn Bjarndal Jónsson, skógarverkfræðingur og framkvæmdastjóri Suðurlandsskóga, tók við sem umdæmisstjóri Rótarýumdæmisins á Íslandi á hátíðlegum fundi Rótarýklúbbs Selfoss í Rauða húsinu á Eyrarbakka sl. þriðjudag.

Í innsetningarræðu sinni sagðist hann leggja áherslu á eflingu félagsstarfsins og minnti á mikilvægi þess að vera opin fyrir nýjungum í starfi á sama tíma og gömlu gildin megi ekki gleymast. Björn notar slagorðið „sáum og uppskerum“ til að minna á að það þarf oft ekki að sá miklu til að uppskera ríkulega í félagsstarfinu. Þá lagði hann áherslu á mikilvægi stuðnings rótarýklúbbanna við alþjóða Rótarýsjóðinn.
Björn Bjarndal er félagi í Rótarýklúbbi Selfoss frá 1997 og er kvæntur Jóhönnu Róbertsdóttur, verkefnisstjóra hjá Rauða krossinum.
Á Íslandi eru starfandi 30 rótarýklúbbar og eru félagar um 1200. Starfið er gróskumikið en klúbbfundir eru vikulega. Fyrirlesari er á hverjum fundi og efniviðurinn fjölbreytilegur og hafa rótarýfélagar stundum kallað fyrirlestrana háskóla lífsins.
Rótarýumdæmið er hluti af gríðarlega öflugri heimshreyfingu Rótarý og er mikil áhersla lögð á hjálpar- og þróunarstarf en Rótarýsjóðurinn er einn öflugasti hjálparsjóður heims sem vinnur m.a. með fjölmörgum aðilum við að útrýma lömunarveikinni í heiminum. Hefur það verið langt stærsta verkefni Rótarýhreyfingarinnar og hefur skilað undraverðum árangri. Hver rótarýklúbbur styrkir verkefni heimavið og flestir leggja Rótarýsjóðnum lið.
Fyrri greinEllen og Eyþór á Sólheimum
Næsta greinMittishátt vatn í rútunni