Björgvin situr hjá að þessu sinni

„Ég hef tilkynnt valnefnd vegna uppstillingar á framboðslista Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi að ég gefi ekki kost á mér að þessu sinni,“ segir Björgvin G. Sigurðsson, fyrrverandi viðskiptaráðherra.

„Frá því ég gerði hlé á framhaldsnámi mínu erlendis árið 1999 til að taka þátt í stofnun nýrrar hreyfingar jafnaðarmanna hef ég gegnt margvíslegum trúnaðarstörfum fyrir hreyfinguna, m.a setið á þingi og í ríkisstjórn, og allt til þessa dags verið virkur í grasrót flokksins,“ segir Björgvin í tilkynningu sem hann sendi frá sér í kvöld.

„Verkefnin á vettvangi stjórnmálanna voru oft stríð og erfið, en alltaf gefandi. Hrunið tók á persónulega og pólitískt, en það voru forréttindi að starfa að stjórnmálum á erfiðustu tímum lýðveldisins, m.a. að taka þátt í gerð og setningu neyðarlaganna sem flestir eru nú sammála um að hafi verið sá tímapunktur þegar vörn var snúið í sókn í fjármálahruninu.“

Björgvin hefur undanfarið stundað framhaldsnám við Háskóla Íslands sem hann hyggst nú ljúka næsta vor, samhliða því að sinna ritstörfum, ritstjórn og uppbyggingu fjölskyldufyrirtækisins á Suðurlandi.

„Ég mun áfram starfa heils hugar að framgangi jafnaðarstefnunnar og efast ekki um að hreyfingin nái vopnum sínum þegar fram liða stundir. Þeim fjölmörgu sem hvöttu mig til framboðs þakka ég stuðning og vináttu og hlakka til samstarfs síðar meir,“ segir Björgvin ennfremur.